top of page

Sitjandi í svörtu grasi (Traduction Sjon)

 

 

1

 

Þessa nótt, sitjandi í svörtu grasinu

á milli tveggja kossa

horfum við á systur okkar, stjörnurnar

 

Augliti til auglitis

Börnin enn að leik í læknum

 

Hljóðlega, steinvölur falla af himni

blítt á hvílandi líkama okkar

 

Loftsteinar smjúga gegnum föt þín

Elskan mín

Hendur þínar eins og sjávarþang

Brjóst þín fiskar

 

Alda, haf

geymið hin dauðu

Deilið sögum ykkar

Um faðmlög, um skeljar

 

Látið hana aldrei hætta þessa sumartíð

 

 

2

 

Elskan mín, elskan mín

Hjarta mitt slær eins og kjarnakljúfur

 

Jarðskorpan

Orðskorpa

Seig hrauntunga af orðum

Sviti mannanna drýpur

Í árnar, í hafið, í vindinn, í leðjuna

Slagæðar og stórkostlegar bláar skipaleiðir

 

Sterk, sólin

Snýr aftur hvern dag og grefur sig dýpra í hold mitt

 

Sviti

 

Sviti!

Trjálauf

Og plasthafið

Mennskur sviti!

Viður, trjábörkur, kvoða

mennskur sviti

 

Ég berst ekki lengur um

Ég hreyfi mig ekki lengur

Ég bíð bara eftir faðmlagi flísarinnar

 

 

 

Tómið milli flekanna

Tómið milli líkamanna

Seigfljótandi orðin

Jörðin hallar sér ástúðlega fram og þiggur úraníumkoss frá kjarnorkuverunum

 

Strokur þínar ná undir húð mína

Hendur þínar grípa um bein mín

 

Geislavirkar sálir okkar

Brenna

Brenna

Teikn

Eindir

Samruni

Brestur

 

Húð mín fellur að fótum þínum

Ég er nakinn

Ég nakinn líkt og ég hafi aldrei verið til

 

3

 

Sviðin ágústjörð

Ég er með og ég er ekki með

Ég reikna dagana

Ég reikna næturnar

Hvar verður þú milli faðmlaganna?

Hálfvolg, hálfvolg

Brennandi, brennandi,

Land ágústmánaðar!

bottom of page